Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 679  —  431. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um Alþjóðahafsbotnsstofnunina og námuvinnslu á hafsbotni.


     1.      Hver er ástæða þess að fulltrúar Íslands hafa ekki sótt fundi Alþjóðahafsbotnsstofnunarinnar, líkt og fram kemur í svari ráðherra við fyrirspurn á 153. löggjafarþingi (1151. mál, þskj. 2169)? Kemur til álita að endurskoða þá afstöðu og taka þátt í starfi stofnunarinnar?
    Meginástæða þess að fulltrúar Íslands hafa ekki sótt fundi Alþjóðahafsbotnsstofnunarinnar er forgangsröðun verkefna. Um er að ræða langa fundi í Kingston á Jamaíka. Þátttaka í fundunum myndi því fela í sér töluverðan kostnað, bæði vegna ferðanna sjálfra og vinnu starfsfólks í tengslum við fundina.
    Frá því að stofnunin var sett á laggirnar árið 1994 hefur lítill framgangur verið í verkefnum hennar. Þar af leiðandi var sú ákvörðun tekin á sínum tíma að fulltrúar Íslands myndu að jafnaði ekki sækja fundi hennar. Á síðustu tveimur árum hefur þetta hins vegar breyst og er hún orðin einn meginvettvangur hafréttartengdrar umræðu.
    Hvort rétt sé að Ísland taki virkari þátt í starfsemi stofnunarinnar er í skoðun innan ráðuneytisins, en það þyrfti að skoða með hliðsjón af forgangsröðun skattfjár.

     2.      Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda til hugmynda um tímabundna stöðvun eða varanlegt bann við námuvinnslu á hafsbotni til að vernda vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni djúpsjávar?
    Þar sem Ísland hefur ekki verið virkur þátttakandi innan stofnunarinnar hafa fulltrúar ráðuneytisins hvorki talað með né gegn hugmyndum um tímabundna stöðvun eða varanlegt bann við námuvinnslu á hafsbotni.

    Alls fór hálf vinnustund í að taka þetta svar saman.